Brúarstræti 4
Höfn er eitt af Selfoss-húsunum svokölluðu í miðbæ Selfoss, þ.e. hús sem hefur mikið menningarlegt gildi fyrir bæinn. Þar er nú snyrtivöruverslunin Shay með aðsetur á jarðhæð en á 2. hæð er íbúð.
Húsið Höfn var upphaflega reist í Þorlákshöfn árið 1916 en flutt á Eyrarbakka árið 1920, þar sem það var endurriest á vegum Kaupfélagsins Heklu. Árið 1925 það enn á ný tekið niður og flutt austur að Ölfusárbrú fyrir nýtt útibú Heklu. Húsinu var gefið nafnið Höfn, til að minnast uppruna þess, en ekki var fyrr búið að koma því upp á nýjan leik þegar Kaupfélagið Hekla fór í þrot.
Guðmundur Guðmundsson kaupfélagsstjóri ákvað árið 1928 að stofna nýja verslun í Höfn, í samstarfi við tengdason sinn, Sigurð Óla Ólafsson, og Júlíus Guðmundsson stórkaupmann í Reykjavík undir merkjunum „S. Ó. Ólafsson & Co.“ Gerðist Sigurður Óli verslunarstjóri og flutti hann á efri hæð Hafnar ásamt Kristínu Guðmundsdóttur konu sinni. Bjuggu þau hjón þar næstu 20 árin og var einatt gestkvæmt á hinu stóra heimili þeirra, ekki síst á vorin á lestartímum þegar bændur komu með ullina til byggða, oft með eiginkonum og börnum. Þótti þá sjálfsagt að þiggja góðgjörðir hjá Kristínu.
Sigurður Óli er, ásamt Agli Thorarensen, talinn hafa átt mestan þátt í að móta byggðina við Ölfusá á upphafsskeiði hennar. Hann stundaði verslunarrekstur í harðri samkeppni við Kaupfélag Árnesinga, sem laut stjórn Egils, verandi sjálfur gamall starfsmaður kaupfélagsins. Verslunin Höfn hafði raunar ákveðið forskot í þeirri samkeppni, hún starfrækti eigin sláturhús sem kaupfélagið gat með engu móti gert því þá hefði það farið út í samkeppni við Sláturfélag Suðurlands.
Sigurður Óli gerði sig síðar gildandi á sviði stjórnmála, fyrst á sveitastjórnarstigi en síðar sem þingmaður í 16 ár. Sigurður þótti einstakt ljúfmenni, greiðvikinn og ráðhollur ekki síst þegar laut að málefnum til heilla fyrir heimabyggðina. Og jafnvel þótt hann og Egill Thorarensen hafi löngum staðið í harðri samkeppni í verslunarrekstri ríkti góð vinátta á milli þeirra.
Þrátt fyrir öll þessi störf lét Sigurður ekki af starfi verslunarstjóra fyrr en 1964. Þá fluttu þau hjón og fjölskylda til Reykjavíkur, nýir eigendur festu kaup á húsinu og nefndu „Kaupfélagið Höfn“ sem skyldi þjónusta Árnesinga en félagsmenn voru þá alls 300 talsins. Töluðu Selfyssingar þá gjarnan um sjálfstæðismannakaupfélagið annars vegar og framsóknarfélagið hins vegar þar sem Kaupfélag Árnesinga veitti áfram samkeppni.
Um þetta leyti þótti gamla verslunarhúsið mjög svo ófullnægjandi og úr sér gengið, bætti lítið úr skák þótt reistur væri skúr baka til fyrir timburvörudeild kaupfélagsins. Hóf hið nýja kaupfélag að reisa nýtt hús undir starfsemina og í júlí 1969 vígði Höfn nýtt þriggja hæða verslunarhús við Tryggvatorg. Gamla húsið frá Þorlákshöfn var hins vegar rifið niður.

Skoða fleiri eignir
Austurstræti 11
5.836 m²
Háaleitisbraut 68
4.555 m²
Eyravegur 1
2.279 m²
Austurvegur 20
1.214 m²
Háheiði 4
1.191 m²
Brúarstræti 3
348,5 m²
Austurvegur 7
322,9 m²
Austurvegur 9
279,5 m²
Sigtún 3
276 m²
Brúarstræti 6A
214,4 m²
Brúarstræti 12A
201,1 m²
Austurvegur 2D
136 m²
Brúarstræti 1
128,1 m²
Brúarstræti 10
123 m²
Brúarstræti 6
108,2 m²
Brúarstræti 2
99,5 m²
Brúarstræti 8
75,2 m²
Brúarstræti 12
34,1 m²