Brúarstræti 3

Brúarstræti 3-5 er verslunarhúsnæði sem samanstendur af húsunum Edinborg og Fllygering húsinu sem tengd eru saman með millibyggingu.

Edinborgarhúsið stóð upprunalega við Hafnarstræti í Reykjavík og var á sínum tíma nýstárlegasta timburhús landsins, hið fyrsta með miðstöðvarlögn auk stærri sýningarglugga en áður þekktist. Þakið einkenndist af tenntum kanti, áþekkum skotraufum, og á því miðju stóð turn. „Lítill ágóði –fljót skil.“ Þetta voru helstu einkunnarorð Edinborgarverslunar í byrjun síðustu aldar. Edinborg var sérhæfð í vefnaðarvörum en jafnframt mátti versla þar mat og ýmiss konar munaðarvöru í svonefndu pakkhúsi við hlið hins nýja verslunarhúss. Húsið var eitt af þeim sem fórst í brunanum mikla árið 1915 í miðbæ Reykjavíkur.

Flygering húsið var reist í Hafnarfirði árið 1906 af hjónunum Ágústi Theódór Flygenring Þórðarsyni og Þórunni Stefánsdóttur. Þau hjónin bjuggu ásamt börnum sínum á efri hæð en á jarðhæð var aðstaða fyrir verslunarrekstur, útgerð og fundahöld fyrir stjórnmálavafstur í lands- jafnt sem bæjarmálum. Ágúst var þingmaður og er ætíð getið sem eins umsvifamesta athafnamanns Hafnfirðinga á öndverðri 20. öld. Þau hjón bjuggu í húsinu til 1930 þegar það var selt Guðrúnu Eiríksdóttur, hótelstýru í Birninum í Hafnarfirði. Flygenringshúsi var þá umbreytt í gistiheimili og hét eftirleiðis Hótel Björninn. Frá 1950 var öllum hótelrekstri í húsinu lokið og þess í stað starfræktar ýmsar verslanir á jarðhæðinni en skrifstofur þar fyrir ofan. Að síðustu var Kaupfélag Hafnarfjarðar með veiðarfæra- og járnvörudeild sína í Birninum. Árið 1966 var Reykjavíkurvegur breikkaður og þá urðu bæjaryfirvöld að taka þriðjung af austari hluta hússins niður til að rýmka fyrir gatnagerð. Þar með var farið hið litla sem eftir var af þokka hússins og það að lokum rifið til grunna haustið 1970.

Í húsunum á Selfossi starfrækir Motivo glæsilega verslun á jarðhæð, en á efri hæðum eru íbúðir.

348,5 m²
2021

Skoða fleiri eignir