Brúarstræti 1

Húsið við Brúarstræti 1 hefur lengst af verið kennt við Hótel Gullfoss og enn síðar þekkt sem Brauns hús. Þar eru nú þrjár snotrar verslanir sem blasa við þegar komið er að hringtorginu við Ölfusárbrú.

Gullfosshúsið stóð upprunalega við Hafnarstræti á Akureyri, byggt árið 1905. Það þótti strax ein af myndarlegustu byggingum bæjarins, fullra þriggja hæða og með hátt til lofts á jarðhæð. 1909 var það selt þýska kaupmanninum Richard Braun sem var einkum kunnur fyrir innflutning og smásölu á fatnaði frá heimalandi sínu. Braun hafði starfrækt verslunarútibú í Reykjavík, í Hafnarfirði, á Ísafirði og á Seyðisfirði og eignaðist með þessu fimmtu verslunina á landinu. Var Brauns-verslun starfrækt á jarðhæðinni en á annarri og þriðju hæð voru íbúðir, eftir suðurhlið hússins var hengt risastórt skilti með áletruninni, „BRAUNS VERZLUN HAMBURG.

Á efri hæðum hússins voru íbúðir og sumar þeirra voru lengi í skammtímaleigu, þarna hafði í raun árum saman verið gistiaðstaða. Árið 1927 urðu hins vegar á ný vatnaskil í starfseminni í Hafnarstræti 100. Um mitt ár keypti Rannveig Bjarnadóttir húsið fyrir 100.000 kr., þá um 200 föld meðallaun í þjónustustörfum, og flutti þangað veitinga- og gististað sinn, Café Gullfoss, úr næsta húsi sunnan við verslunina. Um leið breytti hún nafninu í Hótel Gullfoss til að gefa skýrt til kynna hver höfuðáherslan yrði með rekstri hússins.

Hótel Gullfoss hafði 20 tveggja manna herbergi á efstu hæð hússins. Á miðhæð voru vistarverur hóteleiganda, eldhús og herbergi fyrir starfsfólk. Á jarðhæð var myndarlegur veitingasalur sem gat tekið allt að 100 manns í sæti auk nokkurra gestaherbergja. Var salur þessi í miðpunkti í félags- og skemmtanalífi Akureyringa. Þetta var ekki hefðbundið hótel í nútímalegum skilningi, þar sem ferðamenn dvöldu í nokkra daga á leið sinni um landið því margir gesta voru heimamenn sem áttu ekki kost á eigin húsnæði.

Árið 1935 keyptu hjónin Sveinn Þórðarson og Sigurlaug Vilhjálmsdóttir Hótel Gullfoss af Rannveigu. Þau gerðu ýmsar endurbætur á húsinu sem var þá farið að láta nokkuð á sjá. Það hafði þá verið klætt bárujárni eins og flest timburhús í þéttbýlisstöðum vegna eldhættu. Ská á móti Hótel Gullfossi, í Hafnarstræti 107, var flokksskrifstofa Sjálfstæðisflokks í Eyjafirði. Fyrir kosningar til þings og sveitarstjórna bar á klögumálum – einkum frá framsóknarmönnum – um að sjálfstæðismenn lokkuðu sveitafólk á kjörstað með gylliboðum um ókeypis gistingu og fæði hjá Sveini og Sigurlaugu gegn því að kjósa „rétt.“

Þau Sveinn og Sigurlaug seldu hótelið 1943 tveimur reykvískum bræðrum, Gunnari og Kjartani Steingrímssyni. Þeir höfðu þó ekki átt það í full tvö ár þegar það brann hinn 14. mars 1945. Eldsins varð vart laust undir miðnætti, upptök hans virtust í miðstöðvarherbergi í austurhlutanum, og varð hótelið alelda á svipstundu. Litlu var bjargað af innanstokksmunum en allir 40 íbúar Hótels Gullfoss, þar af um 20 nemendur við MA, komust út við illan leik, margir á nærfötum einum klæða.

128,1 m²
2021

Skoða fleiri eignir